Afþreying
Afþreying er í boði jafnt innan- sem utandyra. Í kjallara undir matsal er björt setustofa þar sem hægt er að njóta kyrrðar og útsýnis út Eyjafjörðinn. Þar er jafnframt hægt að fara í billjard, pílu eða borðtennis, taka nokkrar léttar æfingar í tækjum eða jafnvel skella sér í pottinn eða innrauða saunu.
Utandyra eru nokkrar vel merktar gönguleiðir niður í fjöru og uppí Vaðlaheiðina (sjá kort). Í fjörunni eru líka áningarstaðir þar sem hægt er að tylla sér niður og hlusta á ölduniðinn og fuglasönginn í fullkominni ró.
Við aðalinnganginn í hótelið er tólf metra hár útsýnis- og sýningarturn sem vert er að skoða hvort heldur er að sumri eða vetri. Við bílaplan hótelsins er lítill létt-golf völlur sem við köllum svo en á erlendum málum kallast íþróttin swingolf. Leikið er að mestu eftir hefðbundnum golfreglum en með einni kylfu, mjúkum bolta og á einföldum velli.
Innan við 15 mínútna akstur frá hótelinu er hægt að komast í sund, á hestbak, í golf, í hvalaskoðun og margt fleira.